HK áfram í úrvalsdeildinni

HK-ingar fagna sæti í efstu deild.
HK-ingar fagna sæti í efstu deild. mbl.is/Arnþór

HK leikur í úrvalsdeild kvenna í handknattleik á komandi keppnistímabili eftir fjögurra marka sigur gegn ÍR í þriðja leik liðanna í úrslitum umspils um sæti í efstu deild í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

Leiknum lauk með 26:22-sigri HK sem vann einvígið samanlagt 3:0.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn betur en eftir um tuttugu mínútna leik komst HK yfir og lét forystuna aldrei af hendi eftir það.

Sara Katrín Gunnarsdóttir átti stórleik fyrir HK og skoraði 9 mörk og þær Elna Ólöf Guðjónsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir fimm mörk hvor.

Karen Tinna Demien var markahæst í liði ÍR með 5 mörk og Hildur María Leifsdóttir og Laufey Lára Höskuldsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor. 

mbl.is