HK ræður þjálfara

Samúel Ívar Árnason og Sigurjón Friðbjörn Björnsson við undirskriftina.
Samúel Ívar Árnason og Sigurjón Friðbjörn Björnsson við undirskriftina. Ljósmynd/HK

Samúel Ívar Árnason hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs HK í handknattleik og skrifaði hann undir þriggja ára samning við félagið.

Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag en Sigurjón Friðbjörn Björnsson verður aðstoðarþjálfari liðsins.

Samúel Ívar tekur við liðinu af Halldóri Harra Kristjánssyni sem var sagt upp störfum í lok febrúar á þessu ári.

Bæði Samúel Ívar og Sigurjón Friðbjörn þekkja vel til hjá félaginu en Samúel lék með liðinu í fimm ár og Sigurjón í þrjú ár.

HK hafnaði í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og háir nú einvígi við ÍR um sæti í efstu deild að ári en HK-ingar leiða 2:0 í einvíginu og geta tryggt sér sæti í efstu deild að ári með sigri í Kórnum síðar í dag.

mbl.is