Situr í mér að hafa ekki klárað annan útileikinn

KA er úr leik.
KA er úr leik. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Snær Stefánsson er þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta. Síðasta tímabil vann KA/Þór alla titlana sem í boði voru en í dag lauk tímabilinu hjá norðanliðinu eftir 30:28-tap gegn Val. KA/Þór er úr leik á Íslandsmótinu og það verða Fram og Valur sem munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn. 

Andri Snær kom í viðtal nokkru eftir leik en hann var í góðum samræðum með þjálfurum Vals í sófasetti í kjallara KA-heimilisins áður en blaðamaður náði af honum tali. Það var í raun yndislegt að sjá þjálfara liðanna skeggræða í rólegheitum og vinsemd um leikinn og liðin áður en Valsararnir héldu frá Akureyri. 

Hvað segir þú Andri Snær. Þið unnuð allt í fyrra, ekkert í ár. Þetta einvígi var hnífjafnt. Hvað skildi á milli? 

„Við höfum þroskast mikið sem lið og höfum gengið í gegn um ýmislegt frá því að ég tók við liðinu fyrir tveimur árum. Akkúrat núna situr í mér að hafa ekki klárað annan útileikinn gegn Val. Þar sem við vorum í góðri stöðu í báðum leikjunum. Það hefðum við þurft að loka leikjunum. Í dag var byrjunin hjá okkur allt of hæg. Valur spilaði frábærlega og við verðum að sætta okkur við þetta tap. Ég vil óska Val til hamingju.“ 

Það er ekki mikið sem skilur á milli í þessum fjórum leikjum. Leikmenn eru á ferðalögum, það er stutt á milli leikja og eflaust þreyta í leikmönnum. Er þetta ekki bara spurning um anda og stemningu? Það virtist vanta örlítið meira krydd í súpuna hjá ykkur þetta tímabilið. 

„Maður finnur minna fyrir þreytunni þegar maður vinnur leiki og í fyrra vorum við bara að vinna þrátt fyrir að vera í rosalega jöfnum leikjum. Það vantaði bara núna að klára jafnan leik. Í dag var valur í frábæru standi og erfitt að eiga við þær. Við reyndum allt og gáfum allt í þetta  og það vantaði lítið upp á.“ 

Þið vilduð kannski bara klára tímabilið og halda gott Júróvisionpartí í kvöld. 

Nú skellir Andri Snær upp úr en þvertekur fyrir það. „Við reyndum allt og vildum vinna. Það vantaði aðeins meiri klókindi. Við vorum komin með byr í seglin í seinni hálfleik en náðum ekki að nýta það og gerðum full mörg mistök til að klára dæmið. Við vorum komin með þetta niður í eitt mark en lákum þá  marki og það breytti aðeins gangi leiksins. Við reyndum að brjóta leikinn upp en það virkaði ekki “ 

En lið KA/Þórs. Það verður að tala sérstaklega um það að í þessum úrslitaleikjum var liðið skipað heimakonum í öllum stöðum nema einni. Aðeins Rut Jónsdóttir er ekki uppalin í KA/Þór. 

„Sem Akureyringur þá er ég sérstaklega stoltur af þessari stöðu. Stelpurnar eru með rosalega mikinn metnað og sigurhugarfar. Við erum með ákveðið módel sem á eftir að skila fleiri leikmönnum og nú er Rakel Sara að fara í atvinnumennsku í Noregi og það er bara frábært. Við erum alvöru landsbyggðarlið og við stöndum saman í gegnum súrt og sætt. Við erum meðal toppliðanna í íslenskum handbolta og við höfum sjálfstraust í að halda áfram með vinnuna okkar. Við viljum bara þróast og bæta okkar leik. Þetta er alvöru lið hjá okkur og ég er stoltur af því að vera hluti af þessu. Næstu tímabil verða virkilega skemmtileg fyrir KA/Þór.“ Sagði hinn magnaði og dagfarsprúði Andri Snær að lokum, svekktur en stoltur. 

mbl.is