Það er hægt að slást og svo bara hlæja saman

Hildigunnur Einarsdóttir var frábær í dag.
Hildigunnur Einarsdóttir var frábær í dag. mbl.is/Þórir Tryggvason

Valskonur tryggðu sig áfram í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í dag. Valur lagði KA/Þór 30:28 í spennuleik á Akureyri og kláraði þar með einvígið 3:1. Valskonan Hildigunnur Einarsdóttir var virkilega sterk í leiknum eins og í einvíginu öllu og hún var munstruð í viðtal eftir leik. 

Það vakti athygli blaðamanns að þrátt fyrir mikil slagsmál allan leikinn þá fór vel á með Hildigunni og leikmönum KA/Þórs og strax eftir leik þá var Hildigunnur komin í hrókasamræður við Mörthu Hermannsdóttur.

„Sko, einvígi við KA/Þór er alltaf mjög skemmtilegt. Fyrir utan það að mæta Rut, sem er besti leikmaður deildarinnar, þá er KA/Þór með ótrúlega flottan hóp. Það er hægt að slást og svo bara hlæja saman og hafa gaman að hlutunum. Einnig má fara í rökræður, við getum orðað það þannig. Það er enginn hroki og engin leiðindi. Það er allt gott á milli og svo bara erum við í slag. Svo er bara allt gott þegar við erum búin. Það er ákveðin fagmennska yfir þessu.“ 

Þið hafið margar verið í þessu lengi og þekkist því vel, margar. 

„Ég er búin að spila með Rut frá því að ég var átján, með eða á móti henni. Það er alltaf gaman að mæta KA/Þór og gaman að koma hingað. Það eru skemmtilegir áhorfendur hér. Það er líka ákveðin stemning í að mæta með alla upp á móti sér. Við þurftum að stilla okkur af í dag fyrir það og kannski að ná einni góðri byrjun. Þetta gekk upp í dag og við náðum að halda í það í dag.“ 

Ef við tölum svo um þína frammistöðu. Að mati blaðamanns var Hildigunnur jafnbesti leikmaður einvígisins. Hún var mjög drjúg á línunni og skoraði töluvert ásamt því að fá aragrúa af vítadómum. Í vörninni var Hildigunnur skynsöm en lét fátt fram hjá sér fara. Ertu ánægð með þína frammistöðu? 

„Ég er mjög sátt með mína frammistöðu í þessum leikjum. Þær eru að finna mig á línunni og taka sendingarnar sem hafa stundum vantað í vetur. Þær eru að þora að taka sendinguna og við erum að nýta alla leikmennina meira inn á vellinum. Það er búið að ganga rosalega vel í þessu einvígi. Skytturnar eru líka að fá sín skot. Við erum bara búnar að spila frábærlega sem lið og liðsheild. Það skilar þessu. Einstaklingurinn skilar aldrei einu né neinu.“ 

Það virðist gott jafnvægi í liðinu ykkar og svo hefur Andrea komið frábærlega inn í þetta í markinu. 

„Hún er búin að vera frábær. Ég verð að viðurkenna að þegar hún kom til liðs við okkur þá vissi ég ekkert hver hún var. Hún er búin að smella eins og flís við rass við hópinn. Var bara í lýðháskóla í Danmörku þegar Saga þurfti að hætta. Gústi hringdi bara í hana og spurði hvort hún vildi vera með okkur í þessari rimmu, komast í handbolta og spila með góðu liði. Hún er búin að standa sig frábærlega og kemur fersk inn í þetta.“ 

Hún eiginlega kom ykkur til bjargar í leikjum eitt og þrjú. 

„Algjörlega. Hún tók líka meira en bara sitt. Hún lokaði gjörsamlega markinu í þessum leikjum. Hún átti stóran, stóran þátt í því að koma okkur í gegnum þetta“ sagði línumaðurinn öflugi að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert