Íþróttamaður ársins fór á kostum - Bjarki markahæstur

Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að gera það gott með …
Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að gera það gott með toppliði Magdeburgar. mbl.is/Árni Sæberg

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn fyrir Magdeburg þegar liðið tók á móti Melsungen á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.

Leiknum lauk með 33:26-sigri Magdeburgar en Ómar Ingi, sem var kjörinn íþróttamaður ársins 2021, skoraði sex mörk í leiknum og var markahæsti maður vallarins.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Magdeburg sem er með 54 stig á toppi deildarinnar og hefur 6 stiga forskot á Kiel þegar fimm umferðir eru eftir af tímabilinu.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen og Alexander Petersson eitt en liðið er með 29 stig í tíunda sætinu. Elvar Örn Jónsson lék ekki með Melsungen vegna meiðsla.

Þá var Bjarki Már Elísson markahæstur í liði Lemgo með átta mörk þegar liðið vann 33:30-sigur gegn Stuttgart á heimavelli en Lemgo er með 30 stig í áttunda sætinu. Bjarki er markahæsti leikmaður deildarinnar með 204 mörk, marki meira en Hans Lindberg.

Viggó Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Stuttgart en Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað hjá Stuttgart sem er með 20 stig í fimmtánda sætinu, fimm stigum frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert