Fer ekki að lyfta eins og pabbi

Dana á vellinum. Hún kveðst spennt yfir flutningi frá Drammen …
Dana á vellinum. Hún kveðst spennt yfir flutningi frá Drammen til Volda í sumar, nýju handboltaliði og nýju háskólanámi. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst þetta rosalega spennandi, það verður bara gaman að koma þarna, ég er að fara í nám þarna og handboltaliðið þarna er í örum vexti,“ segir Dana Björg Guðmundsdóttir, fyrrverandi unglingalandsliðskona í handbolta í Noregi, í samtali við mbl.is, en Dana er að hefja feril sinn sem vinstri hornamaður hjá handboltaliðinu í Volda, litlum bæ í Suðurmæri í Noregi, í lok júlí.

Dana, sem er tvítug í ár, fædd 2002, er þó enn búsett í Drammen, þeim fagra bæ suður af Ósló, og þarf vart að kynna foreldra hennar, landsþekkt vaxtarræktarfólk á Íslandi á öldinni sem leið, þau Guðmund Bragason og Ingu Steingrímsdóttur sem heiðruðu mbl.is með jólaviðtali um feril sinn og Noregsbúsetu árið 2020.

„Ég er fædd á Íslandi en flutti hingað til Noregs þegar ég var eins árs svo ég hef búið hér alla ævi,“ segist Dönu frá en hún hóf handboltaferilinn ellefu ára gömul í Konnerud sem tilheyrir Drammen. Nú er háskólanám hins vegar á næsta leiti, í Volda, og þá ekki verra að þar sé spennandi handboltalið á svæðinu. „Mér líst mjög vel á liðið í Volda, margir að mæta þar sem áhorfendur á leiki og margt að gerast,“ heldur hún áfram og má geta þess að Volda skartar tveimur íslenskum þjálfurum, þeim Halldóri Stefáni Haraldssyni og Hilmari Guðlaugssyni.

Unglingalandsliðskonan fyrrverandi er að sögn síns nýja þjálfara efnilegur leikmaður …
Unglingalandsliðskonan fyrrverandi er að sögn síns nýja þjálfara efnilegur leikmaður sem verði fengur að hjá Volda. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var í unglingalandsliðinu hér í Noregi áður en það var ekki föst staða og ég keppti ekki á neinum mótum, var bara að æfa. Svo datt ég út úr því, það er nú bara eins og það er þegar einhver betri kemur í staðinn,“ segir Dana og hlær. Hún er á leið í kennslufræðinám í Volda, tók sér frí frá námi og fór þá að starfa við það sem í Noregi kallast SFO, skole- og fritidsordning, sama fyrirbæri og frístundaheimili við íslenska grunnskóla.

Flutningur stórt skref

Fyrsta æfing innan vébanda nýs liðs er 25. júlí og er Dana með tveggja ára samning við liðið. Hún játar að það sé stórt skref að yfirgefa foreldrahúsin, „en maður verður nú að gera það einhvern tímann“, bætir hún við og hlær.

Dana Björg Guðmundsdóttir í búningnum og klár í slaginn. Hún …
Dana Björg Guðmundsdóttir í búningnum og klár í slaginn. Hún játar að það verði visst skref að flytja úr foreldrahúsum í Drammen í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Ekki er annað tækt en að spyrja Dönu undir lokin hvort hugur hennar hafi aldrei hneigst til lyftinga þegar litið er til foreldranna, annálaðra vaxtarræktarmeistara á öldinni sem leið. „Nei, það hefur mér aldrei dottið í hug,“ er viðmælandinn fljótur að svara, „ég er ekkert byggð fyrir svoleiðis, en maður veit kannski ekki hvað gerist í framtíðinni,“ játar hún að skilnaði.

„Þetta var þannig að ég var búinn að vera í handboltanum á Íslandi, hjá Fylki, og svo er bara hringt í mig og mér boðið starfið hjá Volda,“ segir Halldór Stefán Haraldsson þjálfari sem er næstur á mælendaskrá. „Þetta er nú þannig í handboltanum að maður þekkir mann og svo bendir einhver á mann, Volda hefur nú verið með íslenska þjálfara áður, bæði Kristin Guðmundsson og Alfreð Finnsson var fyrir mörgum árum,“ heldur Halldór áfram en nú er Hilmar Guðlaugsson þjálfari þar með honum sem fyrr segir.

Efnilegur og flottur leikmaður

„Ég var mjög spenntur fyrir þessu þegar þeir höfðu samband vorið 2016 og við drifum okkur bara út, vorum þá með einn þriggja ára strák,“ segir Halldór en kona hans er Sara Guðjónsdóttir sem starfar á leikskóla í smábænum norska. „Þetta er auðvitað ekki miðpunktur alheimsins hérna en við erum bæði vön því að vera úti á landi, hún er frá Selfossi, ég er fæddur í Vestmannaeyjum og bjó einnig á Akureyri áður en ég fór til Reykjavíkur. Ég er Framari sko, eða lít á mig sem Framara,“ játar Halldór sem hefur starfað sem atvinnuþjálfari í rúman áratug.

Ásamt foreldrunum, Guðmundi Bragasyni og Ingu Steingrímsdóttur.
Ásamt foreldrunum, Guðmundi Bragasyni og Ingu Steingrímsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Hann kveður feng í því að fá Dönu til liðsins. „Ég var náttúrulega búinn að fylgjast með henni í  tvö ár í fyrstu deildinni, maður tekur náttúrulega alltaf eftir leikmönnum með íslensk nöfn og þegar ég heyrði að einhver möguleiki væri að hún væri að koma hingað fór ég beint í það. Þetta er mjög efnilegur og flottur leikmaður sem getur nýst okkur vel næsta tímabil,“ segir Halldór af þessum væntanlega liðsauka.

Halldór á vellinum í Volda. Hann segir þjálfarastarfið alltumlykjandi, „að …
Halldór á vellinum í Volda. Hann segir þjálfarastarfið alltumlykjandi, „að vera þjálfari er bara 24-7“. Ljósmynd/Jon Forberg

„Við erum lítill klúbbur og maður hefur verið að reyna að ná leikmönnum út frá Íslandi en það er bara meira streð en að fá stelpur til að flytja hingað frá Ósló, Bergen eða Þrándheimi. Mér finnst margar stelpur eiga að prófa að spila erlendis og þora að taka skrefið út þannig að ég hef verið dálítið í því að ná í leikmenn að heiman sem eru góðir og hafa áhuga á að koma,“ segir Halldór sem hefur haft töluvert íslenskra leikmanna hjá sér í Volda síðustu ár.

Maður er alltaf yfir þessu

Hann kveðst vera vakinn og sofinn yfir starfinu hjá Volda sem sé skrifstofustarf yfir daginn með æfingum í hádegi, síðdegis og á kvöldin. „Við æfum alla daga og að vera þjálfari er bara 24-7, maður er alltaf yfir þessu,“ heldur hann áfram og kveður norskan kvennahandbolta einn þann sterkasta í heiminum. „Þannig hefur þetta verið lengi og það er nú svo að árangur skapar árangur eins og maður segir og hér eru stelpur í öllum bæjum að æfa handbolta þannig að fjölda leikmanna er mjög mikill.

Ásamt fjölskyldunni í Volda en þangað var flutt frá Íslandi …
Ásamt fjölskyldunni í Volda en þangað var flutt frá Íslandi árið 2016 í kjölfar atvinnutilboðs. Ljósmynd/Jon Forberg


Auðvitað gæti maður tínt til milljón þætti sem spila inn í en hér er þetta bara mjög sterkur kúltúr þótt í sjálfu sér sé mestöll umgjörðin og aðstaðan sú sama og á Íslandi,“ segir Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari hjá Volda í Noregi að lokum og hlakkar til að bæta nýjum íslenskum leikmanni við liðið.

mbl.is