Glæsimark Hauks og auðvelt hjá Kielce - myndskeið

Haukur Þrastarson skoraði eitt mark í kvöld.
Haukur Þrastarson skoraði eitt mark í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Pólsku meistararnir í Kielce komust í kvöld auðveldlega í undanúrslit  Meistaradeildar karla í handknattleik með sigri gegn Montpellier frá Frakklandi í seinni leiknum á sínum heimavelli, 30:22.

Kielce stóð vel að vígi eftir sigur í fyrri leiknum í Frakklandi, 31:28, og gerði nánast út um einvígið í fyrri hálfleiknum í kvöld en að honum loknum var staðan 15:8 og Pólverjarnir með samanlagt tíu mörk í forskot.

Þeir fylgdu því eftir og unnu afar sannfærandi sigur. Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce en hann var eini Íslendingurinn á vellinum því Sigvaldi Björn Guðjónsson hjá Kielce og Ólafur Guðmundsson hjá Montpellier voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Hér fyrir neðan má sjá Hauk skora ellefta mark Kielce í leiknum: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert