Eyjamaður til liðs við Fram

Ívar Logi Styrmisson í leik með Gróttu gegn Fram á …
Ívar Logi Styrmisson í leik með Gróttu gegn Fram á nýafstöðnu tímabili. mbl.is/Unnur Karen

Handknattleiksdeild Fram hefur tilkynnt að Ívar Logi Styrmisson muni leika með karlaliði félagsins næstu tvö ár.

Ívar Logi, sem er 22 ára gamall, kemur frá uppeldisfélaginu ÍBV en lék síðast með Gróttu í úrvalsdeild karla, Olísdeildinni, sem lánsmaður.

Hann er yngri bróðir Hákons Daða Styrmissonar, landsliðsmanns og leikmanns þýska liðsins Gummersbach og er auk þess yngri hálfbróðir Andra Heimis Friðrikssonar, sem lék einmitt með karlaliði Fram í handknattleik á sínum tíma.

„Ívar Logi Styrmisson hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Ívar er 22 ára fjölhæfur leikmaður sem flutti til Reykjavíkur frá [E]yjum í fyrra og spilaði með Gróttu í Olísdeildinni.

Hann á fjölda landsleikja fyrir unglingalandslið Íslands. Þess má geta að hann er bróðir Andra Heimis fyrrum leikmanns Fram. Velkominn í Fram Ívar og gangi þér vel með Fram merkið á kassanum!“ sagði i tilkynningu frá handknattleiksdeild Fram.

Fram er mjög áhugavert félag og ég er mjög spenntur fyrir því að fara í nýtt umhverfi og fá nýtt hlutverk,“ sagði Ívar Logi í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert