Fullt af látum og menn að detta og tuða

Róbert, númer 25 hjá ÍBV, sækir að Magnúsi Óla Magnússyni …
Róbert, númer 25 hjá ÍBV, sækir að Magnúsi Óla Magnússyni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er góð spurning og eitthvað sem við þurfum að skoða fyrir þessa seríu,“ svaraði Róbert Sigurðarson, varnarjaxl ÍBV, um hvað fór úrskeiðis í upphafi fyrsta leik liðsins gegn Val í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í kvöld.

Valur vann að lokum 36:25 eftir að hafa komist í 9:2 í upphafi leiks. Staðan í einvíginu er 1:0, Val í vil, en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Staðan í hálfleik var 22:9 og réðu Eyjamenn illa við spræka Valsmenn.

„Það kom okkur ekkert á óvart að þeir myndu hlaupa á okkur sem þeir gerðu. Við héldum að við værum undirbúnir fyrir það en vorum það kannski ekki nóg. Það er munurinn á fyrri og seinni,“ sagði Róbert en leikurinn jafnaðist töluvert í seinni hálfleik.

„Heilt yfir var þetta fínt. Þessi seinni hálfleikur var flottur. Við vorum bara að undirbúa okkur fyrir þessa fjóra leiki sem við munum spila við þá. Þetta var bara fínt,“ sagði hann.

Róbert í leik gegn Haukum í janúar.
Róbert í leik gegn Haukum í janúar. mbl.is/Óttar Geirsson

Björgvin Páll Gústavsson átti afar góðan leik í markinu hjá Val og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann varði alls 21 skot í leiknum, þar af eitt víti. 

„Við ætluðum að halda í boltann og klára færin okkar. Hann ver um það bil 15 bolta í fyrri og þá fá þeir auðveldu bolta til að keyra á okkur. Það tókst hjá þeim en ekki okkur. Við þurfum að halda betur í boltann, klára færin okkar og taka á móti þeim í þessari seinni bylgju.“

Mikil læti og harka voru í leiknum, eins og oftast í úrslitaeinvígum í handbolta, og Róbert er hrifinn af slíku. „Þetta var glæsilegt og sérstaklega flott í seinni hálfleik. Það var fullt af látum, menn að detta og tuða í hvorum öðrum. Það er partur af þessu. Þetta er upp á titil og það á að vera svona,“ sagði hann og bætti við að það kryddi einvígið enn meira að það séu leikmenn í báðum liðum sem hafa spilað með hinu liðinu.

„Algjörlega. Það var verið að kalla á milli og það gerir þetta frábært fyrir okkur og fólkið sem var að horfa líka, bæði í sjónvarpinu og á vellinum.“

Annar leikurinn í einvíginu fer fram í Vestmannaeyjum á sunnudaginn kemur. „Á næstu dögum hendum við í okkur Unbroken, tökum rútuferð heim, spjöllum aðeins og tökum því rólega. Það er recovery-æfing á morgun, myndbandsfundur og svo verðum við klárir í næsta leik,“ sagði Róbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert