Misstu af undanúrslitum í sjötta skiptið í röð

Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk gegn stórliði Barcelona í …
Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk gegn stórliði Barcelona í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Teitur Örn Einarsson og  félagar í þýska liðinu Flensburg  féllu út í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handknattleik í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Spánarmeisturum Barcelona í jöfnum leik á útivelli, 27:24.

Barcelona stóð vel að vígi eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Þýskalandi 33:29 og vann því einvígið með samtals sjö marka mun.

Teitur skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg en þetta er í sjötta skiptið í röð sem þýska liðið fellur út á þessu stigi Meistaradeildarinnar.

Kielce frá Póllandi og Veszprém frá Ungverjalandi eru komin í undanúrslit ásamt Barcelona en fjórða liðið verður Kiel eða París SG sem mætast í kvöld en þau gerðu jafntefli, 30:30, í fyrri leik sínum í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert