Skemmtilegast að mæta ÍBV í úrslitum

Alexander Örn Júlíusson verst Degi Arnarssyni úr ÍBV.
Alexander Örn Júlíusson verst Degi Arnarssyni úr ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alexander Örn Júlíusson, fyrirliði Vals, er spenntur fyrir úrslitaeinvígi liðsins við ÍBV á Íslandsmótinu í handbolta sem hefst í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. 

„Okkur Valsmönnum líður vel fyrir þetta einvígi. Við höfum fengið góða hvíld og náð að skoða Eyjamenn vel. Við teljum okkur vel undirbúna fyrir þann slag sem bíður okkar,“ sagði Alexander í samtali við mbl.is í dag.

Valur varð Íslandsmeistari í körfubolta í karlaflokki í fyrsta skipti í 39 ár í gærkvöldi og Alexander segir það geta nýst handboltaliðinu.

„Menn eru alltaf spenntir að byrja og menn fá fiðring í magann, sérstaklega í ljósi einvígisins sem var að klárast í gær í körfuboltanum. Það gerir mann enn spenntari að byrja þetta. Vonandi upplifum við svipaða stemningu.

Alexander Örn Júlíusson fagnar deildarmeistaratitlinum sem Valur vann í apríl.
Alexander Örn Júlíusson fagnar deildarmeistaratitlinum sem Valur vann í apríl. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Við höfum nær allir verið að mæta á þessa leiki og sýnt strákunum í körfunni stuðning. Þetta voru ótrúlega spennandi og skemmtilegir leikir og það er mikil samheldni innan félagsins. Meistaraflokkarnir hafa verið að styðja hvern annan í þessu. Það ætti að gefa okkur auka hvatningu fyrir okkar einvígi og vonandi náum við að nýta þennan meðbyr sem er með körfunni,“ sagði Alexander.

Valsmenn hafa unnið alla fimm leikina í úrslitakeppninni til þessa með sannfærandi hætti og hefur liðið ekki leikið í ellefu daga vegna þessa. ÍBV lék síðasta leik sinn fyrir níu dögum.

„Við hefðum kosið að byrja þetta fyrr en við höfum náð að nýta tímann í staðinn til að undirbúa okkur. Tíminn hefur nýst öðruvísi,“ sagði hann.

Alexander viðurkennir að það sé skemmtilegra að mæta ÍBV í úrslitaleikjum en öðrum liðum. „Þetta er skemmtilegasta liðið að mæta í úrslitum. Það er mikil stemning í Vestmannaeyjum og liðið er með skemmtilega og kröftuga stuðningsmenn. Vonandi ýtir stuðningurinn í Eyjum við Valsmönnum og þeir fjölmenni í höllina,“ sagði Alexander.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert