Tóku mér allir fagnandi í ÍBV búningum

Rúnar Kárason kann vel við sig hjá ÍBV.
Rúnar Kárason kann vel við sig hjá ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er bara rólegur, góður og hlakka til,“ sagði Rúnar Kárason, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is í dag. Rúnar verður í eldlínunni í kvöld er fyrsti leikur Vals og ÍBV í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta fer fram í Origo-höllinni á Hlíðarenda.

Rúnar hefur aldrei áður tekið þátt í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil og í raun aðeins tvisvar áður tekið þátt í úrslitakeppni hér á landi.

„Þetta er mitt fyrsta úrslitaeinvígi og mín þriðja úrslitakeppni. Þegar ég var 17 ára gutti fékk ég að taka þátt í miklu einvígi á milli Fram og ÍBV þar sem Roland Eradze og Tite Kalandadze voru að gera garðinn frægan.

Tite Kaladadze og Roland Eradze á góðri stundu.
Tite Kaladadze og Roland Eradze á góðri stundu. Ljósmynd/Brynjar Gauti

Síðan var úrslitakeppnin eiginlega tekin af öll árin mín í meistaraflokki áður en ég flutti út. Ég spilaði að vísu á móti Kára Kristjáni og Haukamönnum á sínum tíma og hér er ég kominn,“ sagði Rúnar, sem lék sem atvinnumaður í Þýskalandi frá 2009 til 2018 og með Ribe Esbjerg í Danmörku frá 2018 til 2021.

Skyttan gekk í raðir ÍBV fyrir þessa leiktíð og hefur notið sín vel í Vestmannaeyjum, sérstaklega eftir að úrslitakeppnin hófst.

„Þetta er geggjað. Það er ekki hægt að tala neitt í kringum það. Það sem er í gangi í Vestmannaeyjum í kringum þessa úrslitakeppni er stórkostleg upplifun.

ÍBV fagnar sigri á Val í febrúar.
ÍBV fagnar sigri á Val í febrúar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Það er þvílíkur andi í öllum bænum og það er sama hvert maður fer, það er fólk að spjalla. Ég fór upp í skóla til dóttur minnar og þar tóku mér allir fagnandi í ÍBV búningum,“ sagði Rúnar.

Erfitt verkefni bíður ÍBV því Valur hefur verið langsigursælasta lið Íslands undanfarin ár.

„Þeir hafa verið að safna saman þessum titlum upp á síðkastið og hafa verið sannfærandi í úrslitakeppninni eins og við. Þeir hafa unnið síðustu 4-5 titla sem í boði eru og það má því segja að þeir séu liðið sem þarf að vinna.

Miðað við hvernig þetta hefur spilast eru tvö sterkustu liðin komin í þetta. Við vinnum einn leik á móti þeim í vetur og þeir unnu einn gegn okkur. Okkur líður vel að fara að mæta þeim og við erum ekki sammála því að þetta verði eitthvað létt fyrir þá,“ sagði Rúnar Kárason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert