Stórsigur Vals í fyrsta leik

Magnús Óli Magnússon Valsmaður býr sig undir að skjóta að …
Magnús Óli Magnússon Valsmaður býr sig undir að skjóta að marki ÍBV á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór

Valur vann afar sannfærandi 36:25-heimasigur á ÍBV í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og fer annar leikurinn fram í Vestmannaeyjum á sunnudaginn kemur.

Valsmenn byrjuðu mun betur og með hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru í upphafi leiks komst Valur í 9:2. Björgvin Páll Gústavsson var að verja vel fyrir aftan góða vörn og hver sóknin á fætur annarri gekk upp hjá Val.

Eyjamenn tóku örlítið við sér í kjölfarið og náðu 5:3 kafla og minnkuðu muninn í fimm mörk. Þá kom hinsvegar glæsilegur kafli hjá Valsmönnum sem hreinlega keyrðu yfir ÍBV og þegar uppi var staðið var munurinn 13 mörk í hálfleik, 22:9.

ÍBV gekk illa að minnka muninn að nokkru ráði í seinni hálfleik og þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður var munurinn tólf mörk, 30:18. Að lokum skildu ellefu mörk liðin að og var sigur Valsmanna aldrei í hættu.  

Stiven Tobar Valencia og Magnús Óli Magnússon voru markahæstir hjá vel með sex mörk hvor og Björgvin Páll Gústavsson varði 21 skot í marki liðsins. Elmar Erlingsson var markahæstur hjá ÍBV með átta mörk. 

Valur 36:25 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Þvílík spilamennska hjá Val í kvöld. ÍBV átti ekki séns.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert