Vorum ógeðslega miklir töffarar

Magnús Óli Magnússon fórnar höndum í leiknum í kvöld.
Magnús Óli Magnússon fórnar höndum í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, átti afar góðan leik í 36:25-sigri á ÍBV í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í kvöld. Valur komst í 9:2 snemma leiks og var ekki að spyrja að leikslokum eftir það.

„Við mætum ekkert eðlilega einbeitir, ekkert eðlilega heitir. Það var heitt í höllinni í gær og við héldum hitanum áfram. Að sjá körfuna klára þetta í gær hjálpaði og gaf okkur auka orku.

Við erum búnir að bíða eftir þessu mjög lengi, þetta var allt of löng pása. Við erum búnir að hlaða upp orku síðustu 13-14 daga og það hjálpaði. Við vorum með fókusinn á réttum stað og vorum ekki yfir peppaðir. Spennustigið var hárrétt hjá okkur,“ sagði Björgvin við mbl.is eftir leik og hélt áfram.

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í markinu hjá Val í …
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í markinu hjá Val í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við vorum að spila geðveika vörn og koma þeim í stórkostleg vandræði og þegar við erum svona hreyfanlegir, allir sem einn, þá kemur þetta allt; þá koma auðveldir boltar frá mér, hraðaupphlaupin og auðveldar sóknarleikinn. Þetta er taktur sem virkar vel.

Við erum svo rosalega góðir einn á einn og með mikla hæfileika og gaura sem hafa spilað svona leiki, ekki bara í allan vetur, heldur í mörg ár,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn sem varði 21 skot í kvöld.  

Mikil læti voru í leiknum og Björgvin segir úrslitakeppnina eiga að vera nákvæmlega svoleiðis.

„Þetta var æðislegt og nákvæmlega eins og úrslitakeppnin á að vera. Þetta á nákvæmlega að vera svona. Auðvitað vissum við að þeir myndu mæta með hörku og læti og reyna að kveikja aðeins í þessu en við hleypum þessu ekki í vitleysu. Við vorum ógeðslega miklir töffarar í sextíu mínútur og við tökum það með til Eyja,“ sagði Björgvin.

mbl.is