Fram vann fyrsta leik eftir æsispennu

Thea Imani Sturludóttir sækir að marki Fram í kvöld.
Thea Imani Sturludóttir sækir að marki Fram í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fram er komið í 1:0 í úrslitaeinvígi sínu gegn Val á Íslandsmóti kvenna í handbolta eftir 28:27-sigur í fyrsta leik í Safamýrinni í kvöld. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og fer annar leikurinn fram í Origo-höllinni á Hlíðarenda á mánudaginn kemur.

Lítið var skorað í upphafi leiks og var staðan 2:2 þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar. Fram komst í kjölfarið í 4:2 og var munurinn 1-2 mörk næstu mínútur og allt fram að 27. mínútu þegar Valur jafnaði í 10:10.

Fram var hinsvegar yfir í hálfleik, 12:11. Hafdís Renötudóttir í marki Fram og Sara Sif Helgadóttir í marki Vals áttu báðar mjög góðan fyrri hálfleik. Sara varði tíu skot í hálfleiknum og Hafdís átta.

Liðin skiptust á að skora framan af í seinni hálfleik en Fram komst tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn í hálfleiknum eftir tíu mínútur, 19:17. Þá kom flottur kafli hjá Val og var staðan 20:20 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Skömmu síðar komst Valur yfir í fyrsta skipti frá því í stöðunni 2:1 er Lovísa Thompson kom gestunum í 22:21. Fram svaraði með þremur mörkum í kjölfarið og komst tveimur mörkum yfir, 24:22.  

Þegar sjö mínútur voru eftir var áfram mikil spenna í leiknum en Framkonur marki yfir, 24:23 og þegar fjórar mínútur voru eftir var allt jafnt, 25:25. Framarar voru hinsvegar sterkari á allra síðustu mínútunum og fögnuðu naumum sigri. 

Karen Knútsdóttir var markahæst hjá Fram með níu mörk og Hafdís Renötudóttir varði 13 skot. Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 8 hjá Val og Sara Sif Helgadóttir átti stórleik í markinu og varði 20 skot. 

Fram 28:27 Valur opna loka
60. mín. Elín Rósa Magnúsdóttir (Valur) á skot í slá Þá er þetta komið hjá Fram!
mbl.is