Þetta einvígi er geggjað sjónvarp

Sara Sif Helgadóttir átti stórleik, þrátt fyrir tap.
Sara Sif Helgadóttir átti stórleik, þrátt fyrir tap. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var handboltaleikur af bestu gerð,“ sagði Sara Sif Helgadóttir, markvörður Vals, í samtali við mbl.is eftir naumt 27:28-tap fyrir Fram í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta.

Þrátt fyrir naumt tap var Sara jákvæð eftir góðan handboltaleik. „Bæði lið spiluðu ótrúlega flottan handbolta og það vantaði ótrúlega lítið upp á að við myndum vinna þetta. Þetta var stöngin inn, stöngin út leikur en á sama tíma geggjaður handboltaleikur með miklum gæðum,“ sagði hún.

Valur fékk gott tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik en fékk þess í stað þrjú mörk á sig í röð og Fram komst tveimur mörkum yfir. Var það ákveðinn vendipunktur.

„Það komu feilar sem skiluðu hraðaupphlaupum hjá Fram og þær eru ótrúlega fljótar að refsa. Mér fannst þetta detta þar, því við vorum komnar í gírinn.“

Leikurinn í kvöld gefur ansi góð fyrirheit fyrir restina af einvíginu, enda jafnt og spennandi allan tímann.

„Þetta einvígi er geggjað sjónvarp og það er gaman að sjá hvað margir mæta. Ég hvet enn fleiri til að mæta því þetta er frábær handbolti að öllu leyti. Það var mikill hraði, gæði og klikkuð skot og vörnin frábær. Þetta er handbolti af bestu gerð.“

Sara átti sjálf stórleik í markinu og varði 20 skot. Hún er bjartsýn fyrir það sem eftir lifir einvígisins. „Það er margt hægt að byggja á og það eru þrír leikir eftir. Við höldum áfram að spila okkar leik og ef við gerum það vel vinnum við þessa leiki. Það vantaði aðeins upp á í kvöld en þetta kemur,“ sagði Sara.

mbl.is