Væri ótrúlega gaman að kveðja Safamýri með titli

Karen Knútsdóttir sækir Theu Imani Sturludóttur hjá Val.
Karen Knútsdóttir sækir Theu Imani Sturludóttur hjá Val. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er spennt. Þetta verður skemmtilegt einvígi,“ sagði Karen Knútsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is í dag. Fram mætir Val í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta í kvöld.

Fram tryggði sér sæti í úrslitaeinvíginu með sigri á ÍBV í undanúrslitum en átta dagar eru frá síðasta leik liðsins. Ansi margt hefur gerst í íþróttaheiminum síðan og Karen er spennt að loks sé komið að Framliðinu að láta ljós sitt skína.

„Það er mikið búið að gerast í íþróttaheiminum, mikið af leikjum sem maður hefur fylgst með og langt síðan maður spilaði. Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með hinum íþróttagreinunum, svo við erum mjög peppaðar,“ sagði hún.

Allir leikmenn Fram eru klárir í slaginn, fyrir utan landsliðsskyttuna Ragnheiði Júlíusdóttur sem hefur glímt við eftirköst af kórónuveirusmiti síðustu mánuði. „Við höfum verið lengi án Ragnheiðar og við söknum hennar mikið en allar aðrar eru klárar.“

Karen Knútsdóttir á fleygiferð í leik gegn Val.
Karen Knútsdóttir á fleygiferð í leik gegn Val. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fram og Valur hafa verið sterkustu lið landsins undanfarinn rúma áratug og unnið átta af síðustu ellefu Íslandsmeistaratitlum.

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og nær langt aftur í tímann. Við vorum að keppa við þær fyrir tólf árum en ég held Hildigunnur sé sú eina sem er í Val sem var þá líka.

Þetta eru meira en bara liðin á vellinum, þetta eru félögin Fram og Valur og Reykjavíkurslagur. Þetta verður erfið rimma. Þær líta vel út og litu vel út gegn KA/Þór,“ sagði Karen.

Karen í úrslitaeinvíginu gegn Val árið 2018, þegar Fram varð …
Karen í úrslitaeinvíginu gegn Val árið 2018, þegar Fram varð Íslandsmeistari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram varð síðast Íslandsmeistari árið 2018 en liðið var með talsverða yfirburði árið 2020. Þá voru hinsvegar engir Íslandsmeistarar krýndir vegna kórónveirunnar. Karen viðurkennir að það standi enn þá í Framliðinu.

„Árið 2020 var svakalegt ár hjá okkur og maður er enn þá pirraður yfir því en já, síðasti Íslandsmeistaratitill var 2018 og manni er farið að langa í hann aftur. Þetta er ágætisbið fyrir okkur.“

Karen er uppalin hjá Fram og í Safamýrinni. Einvígið verður það síðasta hjá Fram í húsinu, þar sem félagið er að flytja í Úlfarsárdal.

„Ég er svo leið yfir því að ég vil eiginlega ekki hugsa út í það. Auðvitað er frábært og spennandi að við séum að flytja en ég er uppalin í Safamýri og bý beint á móti. Það er eitthvað við Safamýrina, gólfið og lyktina. Þetta er líka passlega stór íþróttasalur og það væri ótrúlega gaman að geta kvatt Safamýrina með titli en það verður virkilega krefjandi á móti Val,“ sagði Karen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert