ÍBV jafnaði einvígið með frábærri endurkomu

Dagur Arnarsson reynir skot að marki Vals í leiknum í …
Dagur Arnarsson reynir skot að marki Vals í leiknum í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV hafði betur gegn Val, 33:31, í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handknattleik karla í Vestmannaeyjum í dag og jafnaði þar með einvígið í 1:1.

Valur var með undirtökin í leiknum langstærstan hluta hans og komust til að mynda í 3:8-forystu snemma leiks.

Eyjamenn gáfust þó ekki upp, söxuðu jafnt og þétt á forskot Vals og voru aðeins einu marki undir, 14:15, í hálfleik.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn af svipuðum krafti og þann fyrri og náðu fljótt fimm marka forystu, 15:20.

ÍBV tók þá vel við sér og minnkaði muninn en komst lengi vel ekki nær en tveimur mörkum frá val.

Þegar tæpar 42 mínútur voru liðnar af leiknum leiddi Valur 21:24 og þegar síðari hálfleikur var rúmlega hálfnaður komst Valur fjórum mörkum yfir, 23:27.

Eftir að Valur hafði komist í 24:28 þegar um 12 mínútur lifðu leiks var enn feikinógu tími fyrir Eyjamenn að ná öðrum góðum kafla.

ÍBV tókst að minnka muninn niður í 26:28, 27:29. Eftir að Valur komst í 28:30 þegar um fimm mínútur voru eftir óx Eyjamönnum ásmegin þegar liðið skoraði þrjú mörk í röð, komst í 31:30, og komst þannig yfir í fyrsta skipti í leiknum síðan í stöðunni 1:0.

Tvær gífurlega mikilvægar markvörslur Björns Viðars Björnssonar höfðu þar mikið að segja.

ÍBV skoraði raunar fimm mörk í röð enda bætti liðið við tveimur mörkum til viðbótar áður en Valur skoraði síðasta mark leiksins.

Tveggja marka endurkomusigur því staðreynd og allt jafnt í einvíginu.

Kári Kristján Kristjánsson og Ásgeir Snær Vignisson voru markahæstir í liði ÍBV með sex mörk hvor og Dagur Arnarsson og Elmar Erlingsson skoruðu fimm mörk hvor.

Hjá Val var Stiven Tobar Valencia markahæstur með sjö mörk og þar á eftir komu Arnór Snær Óskarsson og Tjörvi Týr Gíslason með sex mörk hvor.

Björn Viðar varði alls 12 skot í marki ÍBV og Björgvin Páll Gústavsson 11 í marki Vals.

Liðin mætast í þriðja leik úrslitaeinvígisins í Origo-höllinni að Hlíðarenda næstkomandi miðvikudagskvöld.

ÍBV 33:31 Valur opna loka
60. mín. Valur tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert