Maður er í þessu fyrir svona leiki

Björn Viðar Björnsson við öllu búinn í marki ÍBV í …
Björn Viðar Björnsson við öllu búinn í marki ÍBV í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Björn Viðar Björnsson, markvörður ÍBV, var leikbreytir Eyjamanna er liðið vann Valsmenn 33:31 í Vestmanneyjum í dag.

Eyjamenn tóku daginn snemma og buðu upp á hoppukastala, borgara og kalda drykki fyrir stuðningsmenn liðsins fyrir leik. Stemningin á pöllunum var síðan rafmögnuð og tók Björn Viðar eftir því er hann stóð í rammanum og varði Eyjamenn inn í leikinn.

„Var það ekki markvarslan í lokin, ég held það,“ grínaðist Björn Viðar með þegar blaðamaður spurði hann hvað hefði unnið leikinn í dag. Björn kom sterkur inn í markið eftir að Petar Jokanovic tókst ekki að verja neitt af þeim átta skotum Valsara sem rötuðu á markið er hann stóð í því.

„Við Petar erum að reyna að vinna þetta saman, hann er aðalmarkvörður hjá liðinu, ég þarf að bakka það upp, sem gekk ágætlega í dag.“

Hver var lykillinn á lokakaflanum, Eyjamenn voru fjórum mörkum undir áður en þeir sneru leiknum hressilega sér í vil.

„Ég held að það hafi aðallega verið trúin á verkefnið, punktur.“

Björn lét menn heyra það í seinni hálfleik ef þeir voru ekki með allt á hreinu, hann virtist hafa trú á verkefninu allan tímann.

„Ég var með góða tilfinningu fyrir þessu, frá því fyrir leik. Við höfðum trú á þessu saman.“

Varslan var ekki mikil í síðasta leik eða í fyrri hálfleik í dag en þegar Björn byrjaði að verja virtust Valsmenn aðeins hræðast hann.

„Þetta spilaðist bara svona, ég held að þeir hafi ekki verið hræddir og ekki er ég hræddur við þá. Þetta er 50/50 dæmi.“

Svakalegur dagur hjá ÍBV í dag, mikið húllumhæ fyrir leik og mikið af fólki á pöllunum. Öll hús á eyjunni voru nánast tóm á meðan leikurinn fór fram.

„Maður er að mæta hérna einum og hálfum tíma fyrir leik, það eru hoppukastalar og grill og einhverjir drykkir. Það var klappað fyrir manni þegar maður mætti með íþróttatöskuna inn í salinn, þetta er auðvitað bara geðveikt.“

Birni finnst gaman að spila í svona aðstæðum og segir þetta vera ástæðuna fyrir því að fólk sé í íþróttum.

„Maður er í þessu fyrir svona leiki, það eru forréttindi að spila hérna í Vestmannaeyjum fyrir þessa áhorfendur, sem fylgja okkur upp á land og hvert sem er. Í fyrsta leiknum þó að við töpum með einhverjum 15 eða 20 mörkum, þá erum við miklu betri upp í stúku, það verður þannig allt þetta einvígi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert