Geggjað ef þetta verður áfram svona jafnt

Kristrún Steinþórsdóttir hefur leikið vel með Fram gegn Val.
Kristrún Steinþórsdóttir hefur leikið vel með Fram gegn Val. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í fyrsta leik datt þetta okkar megin og í dag datt þetta þeirra megin,“ sagði Kristrún Steinþórsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is eftir 26:27-tap fyrir Val í öðrum leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í Origo-höllinni á Hlíðarenda.

Fram vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli með einu marki og er staðan eftir tvo æsispennandi leiki því 1:1. Kristrún hefur leikið vel í einvíginu til þessa. 

„Þetta var mjög svipuð upplifun og fyrsti leikurinn. Þetta var rosalega hraður leikur, mikið hlaupið og keyrt en í dag voru þær mikið tveimur yfir en við vorum mikið tveimur yfir í fyrsta leiknum. Ætli það sé ekki heimavöllurinn sem hefur þessi áhrif,“ sagði hún.

Fram fékk tækifæri til að jafna í blálokin en Thea Imani Sturludóttir gerði vel í að komast inn í sendingu og vinna boltann til baka. „Ef sendingin hefði heppnast, hefði það verið geðveikt en Thea var snögg að hlaupa til baka og stal boltanum. Það er ekki við neinn að sakast þar.“

Kristrún er að taka þátt í sínu fyrsta úrslitaeinvígi en hún kom til Fram frá Selfossi árið 2019. „Það er mögnuð upplifun og ótrúlega gaman. Fram og Valur eru Reykjavíkurstórveldi og það  er ótrúlega gaman að vera hluti af þessu og forréttindi að fá að taka þátt í þessu.

Það er allt í járnum og ætli næsti leikur verði ekki líka jafn allan tímann. Það væri geggjað ef þetta verður áfram svona jafnt en ég vil helst taka tvo í röð núna og klára þetta,“ sagði Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert