„Fór kannski aðeins fram úr mér“

Birna Berg Haraldsdóttir í leik með ÍBV.
Birna Berg Haraldsdóttir í leik með ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður ÍBV, kveðst hafa farið aðeins fram úr sér í endurhæfingu sinni eftir að hafa slitið krossband í september síðastliðnum, sem hafi valdið bakslagi.

„Ég fór kannski aðeins fram úr mér. Það gerist þegar maður gleymir sér aðeins í gleðinni. Útlitið var gott og þegar fimm mánuðir voru liðnir frá aðgerð gekk allt mjög vel.

Ég var komin inná parketið og í rauninni eina skrefið sem ég átti eftir var að fara í kontakt. Ég hélt áfram að styrkja mig, hlaupa meira og hoppa hærra,“ sagði Birna í samtali við Handbolta.is.

Í lok marsmánaðar kvaðst hún hafa verið farin að finna fyrir miklum verkjum í hnénu.

„Ég var hinsvegar svo þrjósk og reyndi að halda áfram að þjösnast á þessu sem varð svo til þess að ég gat ekki hlaupið lengur eða gert æfingarnar mínar án þess að verða draghölt á eftir. Svo leið tíminn og þetta lagaðist aldrei og varð bara verra og verra,“ útskýrði Birna.

Eftir þetta fór hún í aðra smávægilega aðgerð og sagði núverandi líðan sína góða.

mbl.is