Meistarar eftir sigur í vítakeppni

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru meistarar í Póllandi.
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru meistarar í Póllandi. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Kielce tryggði sér í kvöld pólska meistaratitilinn í handbolta tíunda árið í röð með 25:23-sigri á Wisla Plock á útivelli í lokaumferð pólsku úrvalsdeildarinnar. Staðan var 20:20 eftir venjulegan leiktíma og réðust úrslitin því í vítakeppni. 

Kielce var með þriggja stiga forskot á Wisla Plock fyrir leikinn í kvöld en þrjú stig fást fyrir sigra í deildinni. Endi leikir með jafntefli er farið í vítakeppni. Sigurliðið í vítakeppninni fær tvö stig og tapliðið eitt stig.

Wisla Plock var með forystuna stærstan hluta leiks en Kielce tókst að jafna með glæsilegum endaspretti og að lokum tryggja sér sigurinn.

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson léku ekki með Kielce í kvöld vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert