Frábært að fylla Safamýrina

Hildur Þorgeirsdóttir
Hildur Þorgeirsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Þorgeirsdóttir, fyrirliði Fram, var að vonum kát eftir 25:22-sigurinn á Val í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Fram er komið í 2:1 í einvíginu og er einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum.

„Þetta var frábær varnarleikur hjá okkur og Hafdís stórkostleg þar fyrir aftan. Það var það sem skóp sigurinn hjá okkur. Við erum búnar að eiga inni varnarlega í þessari viðureign. Það er ekki orðið 100 prósent hjá okkur en við erum að vinna okkur í áttina að því,“ sagði Hildur við mbl.is eftir leik, en Hafdís Renötudóttir varði 17 skot í markinu.

Áhorfendur beggja liða troðfylltu Safamýrina í kvöld. Leikurinn gæti verið sá síðasti sem Fram spilar í húsinu, en félagið flytur í Úlfarsárdal eftir leiktíðina.

„Þetta var frábært og bara mikið hrós til bæði Valsmanna og Framara að hafa fjölmennt. Við erum að ná að fylla Safamýrina, sem er frábært. Áhorfendurnir eru áttundi leikmaðurinn.

Framkonur standa vörnina í kvöld.
Framkonur standa vörnina í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Það er mjög sorglegt og sárt að vera að yfirgefa Safamýrina. Það myndast mikil stemning í þessu húsi. Vonandi er þetta síðasti leikurinn okkar í þessu húsi og við náum að kveðja svona en það þarf að vinna þrjá leiki og það er ekkert komið enn,“ sagði hún.

Hildur var sársvekkt eftir leik tvö á Hlíðarenda. Hún missti boltann í blálokin þegar Fram fékk tækifæri til að jafna. Tilfinningin var aðeins öðruvísi í kvöld.

„Ég viðurkenni að þetta var mjög erfitt. Ég fæ martraðir enn þá að hugsa um síðustu sendinguna. Ég var með marga feila í þeim leik og var ekki að finna mig. Þá er bara eitt í stöðunni; það er næsti leikur og maður þarf að rífa sig upp,“ sagði Hildur.

mbl.is