Fram einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Thea Imani Sturludóttir sækir að Frömurum í Safamýrinni í kvöld.
Thea Imani Sturludóttir sækir að Frömurum í Safamýrinni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Fram er komið í 2:1 gegn Val í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir 25:22-heimasigur í þriðja leik í Framhúsinu í kvöld. Fram getur því orðið Íslandsmeistari er liðin mætast í fjórða sinn á Hlíðarenda á sunnudaginn kemur.

Valur byrjaði aðeins betur og komst í tveggja marka forystu snemma leiks, 5:3. Vörn Valskvenna var að virka afar vel og Fram átti fá svör. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fór Hafdís Renötudóttir að verja glæsilega í marki Fram og við það breyttist leikurinn.

Fram skoraði þrjú mörk í röð, komst í 6:5 og var yfir það sem eftir lifði hálfleiksins. Að lokum munaði þremur mörkum á liðunum í leikhléi er staðan var 12:9, Fram í vil.

Framarar voru snöggir að komast fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik, 15:11. Þá kom virkilega góður kafli hjá Val og þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var munurinn aðeins eitt mark, 16:15. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur en þegar fimm mínútur voru eftir var Fram með tveggja marka forskot, 22:20.  

Valskonum tókst ekki að jafna eftir það og Framarar fögnuðu vel í leikslok. Leikurinn gæti verið sá síðasti sem Fram spilar í Safamýri því félagið flytur í Úlfarsárdal eftir leiktíðina. 

Fram 25:22 Valur opna loka
60. mín. Fram tekur leikhlé 47 sekúndur eftir og Framarar eru að sigla þessu í höfn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert