Töpuðu í úrslitum eftir vítakeppni

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar töpuðu með grátlegum hætti.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar töpuðu með grátlegum hætti. Ljósmynd/Skövde

Ystad varð í kvöld sænskur meistari í handbolta með 47:46-sigri á Skövde í vítakeppni í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu. Ystad vann einvígið 3:1.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti afar góðan leik fyrir Skövde og skoraði átta mörk. Viktor Hallén skoraði 14 og var markahæsti maður liðsins. 

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 32:32 og skoruðu liðin tíu mörk hvort í tveimur framlengingum og réðust úrslitin því í vítakastkeppni. Þar vann Ystad að lokum 5:4. Bjarni skoraði ekki í vítakeppninni.

mbl.is