Naumt tap lærisveina Hannesar í fyrsta leik

Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard.
Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard. Ljósmynd/handball-westwien.at

Austurríska handknattleiksliðið Alpla Hard, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, þurfti að sætta sig við naumt tap, 30:31, gegn Krems þegar liðin áttust við í framlengdum fyrsta leik úrslitaeinvígisins um austurríska meistaratitilinn í kvöld.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 27:27 en Krems reyndist hlutskarpara í framlengingunni og knúði fram sigur með minnsta mun.

Leikurinn í kvöld fór fram á heimavelli Alpla Hard í Hard.

Annar leikur liðanna fer fram eftir slétta viku, þann 4. júní næstkomandi, í Krems.

Hannes Jón er á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari Alpla Hard en áður hafði hann þjálfað Bietigheim í Þýskalandi og Handball West Wien í Austurríki, þar sem hann lauk leikmannaferli sínum.

mbl.is