„Ógeðslega súrt“

Björn Viðar Björnsson varði átta skot í síðari hálfleik.
Björn Viðar Björnsson varði átta skot í síðari hálfleik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta er ógeðslega súrt. Ég veit eiginlega ekki hvernig maður á að lýsa tilfinningum sínum akkúrat núna,“ sagði Björn Viðar Björnsson, markvörður ÍBV, þegar mbl.is ræddi við hann eftir að úrslitin réðust á Íslandsmóti karla í handknattleik. 

Valur vann ÍBV 31:30 í Eyjum í dag og samtals 3:1 í úrslitarimmunni um titilinn. Síðustu þrír leikir í rimmunni voru mjög spennandi og dramatískir. „Já þetta er bara ótrúlegt. Eftir að hafa verið í Vestmannaeyjum í fjögur ár þá hefur maður nú upplifað ýmislegt en það er alveg lygilegt hvernig þessir leikir þróast oft.“

Björn segir erfitt að benda á einhver atriði umfram önnur sem skiptu mestu máli en hann hrósar meistaraliði Vals. 

„Ég get ekki sett fingurinn á það. Ég verð að hrósa Valsmönnum. Mér finnst þeir ógeðslega góðir. Þeir eru grimmir og spila hratt en samt agað. Við erum svo sem einnig grimmir en í dag fannst mér þetta bara falla einhvern veginn með þeim,“ sagði Björn sem fékk skot beint í andlitið snemma í síðari hálfleik. Höggið hafði þó góð áhrif á Björn sem varði mjög vel í framhaldinu. „Ég hugsa að ég hafi varið betur eftir þetta heldur en hitt. En þetta var svolítið vont. Var þetta ekki bara vel varið þegar ég fékk boltann í hausinn?“

Stuðningsmenn ÍBV í Eyjum í dag.
Stuðningsmenn ÍBV í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Leikurinn í dag var mikil skemmtun. Hafa þessir úrslitaleikir Vals og ÍBV ekki verið góð auglýsing fyrir íþróttina? 

„Jú ég myndi halda það. Ég fylgdist nú sjálfur með körfuboltaeinvíginu og fannst það frábært en þetta er ekkert síðra hérna hjá okkur í handboltanum. Ég held að þessir leikir hafi verið frábær auglýsing,“ sagði Björn Viðar Björnsson sem varði 11 skot í leiknum og þar af 8 í síðari hálfleik. 

mbl.is