Róbert vitnaði í Shady Owens

Valsmenn fagna í leikslok í dag. Róbert Aron er lengst …
Valsmenn fagna í leikslok í dag. Róbert Aron er lengst til vinstri á myndinni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Róbert Aron Hostert, einn af reyndari mönnum Vals, sagðist hafa grátið af gleði þegar sigurinn á Íslandsmótinu í handknattleik var í höfn í Vestmannaeyjum í dag. 

Róbert hefur orðið Íslandsmeistari með þremur liðum á ferlinum. Einnig með Fram og ÍBV. Hann sagðist ekki hafa grátið af gleði fyrr þegar þessum áfanga er náð. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer inn í klefa að gráta eftir að hafa orðið Íslandsmeistari. Það fer margt og mikið í gegnum hugann og það eru greinilega tilfinningar í þessu. Það var auðvitað skrítið að vinna gamla liðið sitt í úrslitum. Gleðin tekur yfir og ég er ógeðslega stoltur af liðinu,“ sagði Róbert Aron þegar mbl.is spjallaði við hann í Vestmannaeyjum. 

Róbert Aron segir mikið fyrir árangrinum haft og hann hafi stundum verið orðinn hundleiður á undirbúningstímabilinu. 

„Það er erfitt að verja Íslandsmeistaratitil og hvað þá að vinna þrefalt eins og í vetur. Við erum búnir að leggja inn fyrir því. Allar þessar ógeðslegu æfingar sem maður blótaði ítrekað síðasta vetur en þær hafa heldur betur skilað sér. Ég er einnig stoltur af því hvernig við spilum því mér finnst það vera í rétta átt. Við spilum hratt og stundum veltir maður því fyrir sér hvort hraðinn sé einum of mikill. Valur er að búa til góða uppalda leikmenn og ég er bara stoltur af því að vera hluti af því. Við höfum búið til fjölskyldu í Val og stundum er umræðan Valur á móti rest,“ sagði Róbert sem var drjúgur í síðari hálfleik í kvöld og skoraði 6 mörk. 

Róbert Aron Hostert skýtur að marki í dag en hann …
Róbert Aron Hostert skýtur að marki í dag en hann skoraði sex mörk. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Hann varð Íslands- og bikarmeistari með ÍBV á sínum tíma og ber mikla virðingu fyrir heimamönnum og starfinu hjá ÍBV. 

„Ég tek hattinn ofan enn og aftur fyrir ÍBV. Eyjamenn eru stórkostlegir. Þetta eru tvö bestu lið landsins og þeir eru með mjög gott lið. Það er erfitt að spila hérna og ná titlinum hérna í dag er æðislegt. Ég elska alla,“ sagði Róbert eins og Shady Owens söng um árið. 

„Maður er í þessu fyrir leiki eins og þessa. Svona leikjum fylgja tilfinningar, stress og allur pakkinn. Fólk veit ekki heldur ekki um það sem gengur á utan vallar, endalausar æfingar og fundir auk þess sem maður þarf að gera til að passa upp á skrokkinn. En þegar maður fær tækifæri til að spila við aðstæður eins og í dag þá er það ógeðslega skemmtilegt,“ sagði Róbert Aron Hostert ennfremur.  

mbl.is