Fékk stærra hlutverk en hann átti von á

Bræðurnir Benedikt og Arnór í sigurvímu í leikslok.
Bræðurnir Benedikt og Arnór í sigurvímu í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Benedikt Gunnar Óskarsson sprakk út sem meistaraflokksleikmaður í Íslands- og bikarmeistaraliði Vals á keppnistímabilinu sem lauk í gær með sigri Vals. 

Benedikt tjáði mbl.is í gær að hann hafi fengið stærra hlutverk á tímabilinu en hann hafði búist við. Leikmannahópur Vals er mjög sterkur en það reyndist vatn á myllu Benedikts þegar Tumi Steinn Rúnarsson hélt til Þýskalands í vetur. 

„Ég átti eiginlega ekki von á að fá svona stórt hlutverk ef ég á að segja alveg eins og er. Í byrjun tímabilsins spilaði ég heldur ekki mikið þegar allir voru heilir. Þegar margir meiddust hjá okkur þá tókst mér að spila vel. Það gerði mjög mikið fyrir mig þegar Tumi fór út og ég reyndi bara að nýta allar mínútur sem ég fékk,“ sagði Benedikt Gunnar og þegar komið var í spennandi úrslitaleiki gegn ÍBV þá lék hann töluvert. 

Benedikt og bróðir hans Arnór Snær komu mjög við sögu á lokamínútunni í Eyjum í gær. Petar Jokanovic varði vítakast frá Benedikt á lokamínútunni en Valur náði frákastinu. Valsmenn náðu raunar tvívegis frákasti í síðustu sókn liðsins en henni lauk með því að Arnór skoraði síðasta mark Vals af vítalínunni. 

„Ég veit ekki hvað var í gangi þarna. Eftir að ég klúðraði vítinu þá gat ég ekki horft. Ég sá bara Stiven [Valencia] og við fengum annað víti. Arnór skoraði úr vítinu og vann þetta fyrir okkur. Það var bara eitt mark sem skildi liðin að og þetta var geðveikur leikur sem hafði allt,“ sagði Benedikt en leikir liðanna höfðu tilhneigingu til að þróast út í spennu ef frá er skilinn sá fyrsti í rimmunni. 

„Já það er hárrétt. ÍBV er með frábært lið og við líka. Svona er þetta bara þegar komið er í úrslitin,“ sagði Benedikt ennfremur við mbl.is í Eyjum. 

Stuðningsmenn Vals í Eyjum í gær eða hluti þeirra.
Stuðningsmenn Vals í Eyjum í gær eða hluti þeirra. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is