Einn sá besti leggur skóna á hilluna

Kiril Lazarov í leik gegn Íslandi á HM 2019.
Kiril Lazarov í leik gegn Íslandi á HM 2019. AFP

Handknattleiksmaðurinn Kiril Lazarov hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir yfirstandandi tímabil. Lokaleikur Norður-Makedóníumannsins verður með Nantes gegn París SG í úrslitum franska bikarsins á laugardag.

Stórskyttan ætlar að einbeita sér að þjálfun karlalandsliðs þjóðar sinnar en hann tók við liðinu á síðasta ári. Lazarov hefur verið einn besti leikmaður heims undanfarna áratugi, en hann er orðinn 42 ára.

Lazarov lék með stórliðum á borð við Veszprém, Barcelona, Zagreb og Ciudad Real á mögnuðum ferli. Hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu Meistaradeildar Evrópu og markahæsti leikmaðurinn í sögu norðurmakedónska landsliðsins.

mbl.is
Loka