Barcelona Evrópumeistari eftir sigur í vítakeppni

Barcelona er Evrópumeistari annað árið í röð eftir æsispennandi úrslitaleik.
Barcelona er Evrópumeistari annað árið í röð eftir æsispennandi úrslitaleik. AFP/Roberto Pfeil

Barcelona er Evrópumeistari í handbolta annað árið í röð eftir sigur í vítakeppni gegn pólska liðinu Vive Kielce í æsispennandi úrslitaleik í Köln í dag. 

Lokatölur í venjulegum leiktíma voru 28:28 eftir ótrúlegar lokamínútur þar sem Artsem Karalek jafnaði metin fyrir Kielce á síðustu stundu. Barcelona leiddi 14:13 í hálfleik en hnífjafnt var með liðunum allan síðari hálfleikinn. 

Það sama gildi í framlengingu en þar voru Börsungar með eins marks forystu eftir fyrri hluta framlengingarinnar, 30:29.

Daniel Dujshebaev jafnaði metin fyrir Kielce í 30:30 á upphafsmínútu síðari hálfleiks framlengingarinnar. Kielce var svo hársbreidd frá því að landa titlinum þangað til Dika Mem jafnaði metin fyrir Barcelona á 70. mínútu og því efnt til vítakeppni þar sem Barcelona hafði að lokum betur, 3:2.

Þetta er ellefti Evrópumeistaratitill í sögu Barcelona og annar titill félagsins í röð. Aleix Gomez var markahæsti leikmaðurinn í úrslitaleiknum með níu mörk, eina stoðsendingu og eitt frákast.

Haukur Þrastarsson og Sigvaldi Guðjónsson voru hvorugir í leikmannahópi Kielce í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert