Fer ekki til Þýskalands en skiptir um félag í Danmörku

Sveinn Jóhannsson í leik með íslenska landsliðinu á síðasta ári.
Sveinn Jóhannsson í leik með íslenska landsliðinu á síðasta ári. Ljósmynd/HSÍ

Sveinn Jóhannsson, landsliðsmaður í handknattleik, gengur ekki til liðs við þýska 1. deildarliðið Erlangen, þar sem Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari, í sumar. Þess í stað hefur hann skrifað undir eins árs samning við danska úrvalsdeildarfélagið Skjern.

Sveinn, sem er öflugur línumaður og varnarmaður, kemur frá danska úrvalsdeildarfélaginu SönderjyskE þar sem hann hefur leikið undanfarin ár.

Í desember síðastliðnum skrifaði hann undir samning við Erlangen en um mánuði síðar meiddist hann illa á hné á æfingu með íslenska landsliðinu skömmu fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar síðastliðnum.

Í samtali við Handbolta.is fyrr í mánuðinum kvaðst hann bjartsýnn á að vera orðinn leikfær í ágúst eða september á þessu ári.

Þrátt fyrir meiðslin stóð til að samningur hans við Erlangen stæði en nú hefur átt sér stað kúvending í málum Sveins þar sem hann er búinn að skrifa undir eins árs samning við Skjern.

„Ég er að leggja hart að mér og er í nánum samskiptum við sjúkraþjálfara landsliðsins. Á heildina litið gengur þetta vel og ég býst við að vera 100 prósent tilbúinn í lok sumars. Ég hlakka mikið til skiptanna og ekki síst að fá að spila Evrópubolta.

Gott orð fer af Skjern sem hefur stöðugt verið við toppinn til fjölda ára, en það er ljóst að þátttaka í Evrópukeppni er þýðingarmikil fyrir mig og aðra í leikmannahópnum,“ sagði Sveinn í samtali við heimasíðu Skjern.

mbl.is