Aldís í sænsku úrvalsdeildina

Aldís Ásta Heimisdóttir í leik gegn Val í vetur.
Aldís Ásta Heimisdóttir í leik gegn Val í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aldís Ásta Heimisdóttir, landsliðskona í handknattleik úr KA/Þór, er gengin til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Skara og hefur samið við það til tveggja ára.

Félagið skýrði frá þessu í dag en það hafnaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili.

Aldís Ásta er 23 ára leikstjórnandi og hefur verið í stóru hlutverki hjá KA/Þór undanfarin ár, m.a. þegar félagið varð Íslandsmeistari árið 2021. Hún kom í fyrsta skipti inn í íslenska landsliðið á síðasta ári.

Hún er þriðji leikmaður KA/Þórs sem semur við erlent félag í sumar en markvörðurinn Sunna Guðrún Pétursdóttir er farin til Amicitia Zürich í Sviss og Rakel Sara Elvarsdóttir til Volda í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert