Hlakkar ekki til að fara á eftirlaun

Alfreð Gíslason í Íslandsheimsókn í síðustu viku.
Alfreð Gíslason í Íslandsheimsókn í síðustu viku. Hákon Pálsson

Rúm tvö ár eru síðan Akureyringurinn Alfreð Gíslason tók við stjórnartaumunum hjá karlalandsliði Þýskalands í handknattleik eða í mars árið 2020. Fyrstu árin í starfi hafa litast af heimsfaraldrinum og kynslóðaskiptum í landsliðinu. Sorgin hefur knúið dyra hjá Alfreð og hans fjölskyldu auk þess sem landsliðsþjálfarinn fékk hótanir sem urðu að lögreglumáli.

Alfreð var staddur hérlendis á dögunum og var á meðal fyrirlesara á þjálfaranámskeiði hjá Handknattleikssambandi Íslands. Sunnudagsblaðið nýtti tækifærið og settist niður með Alfreð í Háskólanum í Reykjavík. Alfreð segist stoppa stutt á Íslandi í þetta skipti og þykir verra að komast ekki á æskustöðvarnar en ætlar að bæta sér það upp síðar.

Samningur Alfreðs við þýska handknattleikssambandið gildir fram yfir Ólympíuleikana sumarið 2024 en hann samdi við sambandið á ný í árslok í fyrra. Alfreð segir þjálfarastarfið enn veita sér mikla ánægju og sér ekki fyrir sér að hægja ferðina við lok samningstímans.

„Ég lærði fyrir ekki svo löngu að vera ekki að plana neitt rosalega langt fram í tímann. Ég var í þeim pakka en þær áætlanir urðu að engu. Eftir það ákvað ég að taka mér tvö ár til að taka ákvörðun um hvað ég vil gera. Það eina sem ég veit er að ég ætla ekki að hætta í þjálfun enda nenni ég ekki að gera ekki neitt. Þetta er alltof gaman og ég er ekki einn þeirra sem hlakka til að fara á eftirlaun. Ég prófaði að taka mér frí í hálft ár,“ segir Alfreð og vísar til þess þegar hann ákvað að hætta þjálfun félagsliða sumarið 2019.

Horft til 2024

Fyrstu þrjú stórmót landsliða eftir að Alfreð tók við voru HM í Egyptalandi í janúar 2021, Ólympíuleikarnir í fyrra og EM í janúar á þessu ári þegar Þýskaland lék í Slóvakíu. Mikil skakkaföll urðu hjá Þjóðverjum.

„Þetta hefur verið öðruvísi en maður bjóst við. Fyrsta stóra mótið hjá mér með liðið var HM í Egyptalandi í janúar 2021. Eftir að heimsfaraldurinn skall á breyttist leikmannahópurinn fyrir HM og vináttuleikir duttu upp fyrir. Byrjunin í starfinu var því óvenjuleg,“ segir Alfreð og nú blasir við honum að setja saman nýtt lið og sú uppbygging er hafin.

Alfreð þakkar fyrir sig eftir að hafa verið útnefndur í …
Alfreð þakkar fyrir sig eftir að hafa verið útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nokkrir af eldri leikmönnunum gefa ekki lengur kost á sér í landsliðið þótt þeir séu ekki mjög gamlir. Til dæmis leikmenn sem ég þjálfaði áður hjá Kiel. Á síðasta ári tók ég mjög marga unga stráka inn í hópinn með það að markmiði að vera kominn með lið sem getur verið sæmilega samhæft árið 2024. Að þessir leikmenn verði þá komnir með grunn og einhverja reynslu. Við erum í rauninni með mjög ungt lið eins og er. Þýska deildin er svo krefjandi að erfitt getur verið að fá menn til að halda áfram með landsliðinu eftir þrítugt sem er súrt því þá eru menn að komast á þann aldur þar sem þeir eru bestir í íþróttinni.“

Viðtalið við Alfreð í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert