Ómar langbestur í bestu deild heims

Ómar Ingi Magnússon átti frábært tímabil með Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon átti frábært tímabil með Magdeburg. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður Íslands og leikmaður Þýskalandsmeistara Magdeburg, var í dag útnefndur besti leikmaður tímabilsins í þýsku 1. deildinni, sterkustu landsdeild í heiminum.

Ómar átti frábært tímabil, þar sem hann fór fyrir liði Magdeburg þegar það varð þýskur meistari í fyrsta sinn í rúma tvo áratugi og varð næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

Í atkvæðagreiðslu vefsíðu deildarinnar fékk Ómar hvorki fleiri né færri en 65 prósent atkvæðanna og því var um algjöran yfirburðasigur að ræða. Næstur á eftir honum kom Johannes Golla, línumaður Flensburg og fyrirliði þýska landsliðsins, með 10,92 prósent og þriðji var íslenski Daninn hjá Füchse Berlín, Hans Óttar Lindberg, sem varð fertugur að aldri markakóngur deildarinnar. Hann hlaut 10,69 prósent atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert