Grétar í efstu deild í Frakklandi

Grétar Ari Guðjónsson í leik með Haukum.
Grétar Ari Guðjónsson í leik með Haukum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleiksmarkvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson hefur skipt um félag í Frakklandi og mun leika í efstu deild þar í landi á komandi keppnistímabili.

Grétar hefur leikið með Nice í B-deildinni undanfarin tvö ár og Handnews.fr segir að hann hafi verið einn besti markvörður deildarinnar í vetur en hann var með 34,2% markvörslu í leikjum Nice.

Nú hefur hann gengið til liðs við Séléstat sem lék í sömu deild í vetur og hafnaði í fimmta sæti en vann síðan umspil um eitt sæti í 1. deildinni og leikur því þar á næsta tímabili en samningur hans er til tveggja ára.

Grétar er 26 ára gamall og lék áður með Haukum þar sem hann varð Íslandsmeistari 2015 og 2016, en einnig með Selfyssingum.

Séléstat er frá litlum samnefndum bæ við landamæri Frakklands og Þýskalands, skammt frá Strasbourg

Þar með verða tveir íslenskir markverðir í frönsku 1. deildinni næsta vetur. Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður er kominn til Nantes frá GOG í Danmörku og mun ennfremur leika með sínu nýja liði í Meistaradeild Evrópu á komandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert