Ísland í efsta styrkleikaflokki fyrir HM

Íslenska landsliðið gerði það gott á EM í Búdapest í …
Íslenska landsliðið gerði það gott á EM í Búdapest í janúar og náði sjötta sæti. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Karlalandslið Íslands í handknattleik verður í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla heimsmeistarakeppninnar 2023 þann 2. júlí en keppnin  verður haldin í Póllandi og Svíþjóð í janúar á næsta ári.

Góður árangur íslenska liðsins á EM í byrjun þessa árs tryggir liðinu þetta sæti sem gefur liðinu möguleika á að fá hagstæðan riðil í keppninni.

Ísland verður í fyrsta flokki ásamt Danmörku, Svíþjóð, Spáni, Frakklandi, Noregi, Þýskalandi og efstu þjóð Afríku.

Í öðrum flokki eru Katar, Króatía, Belgía, Brasilía, Portúgal, Pólland, Svartfjallaland og Norður-Makedónía.

Í þriðja flokki eru Serbía, Ungverjaland, Barein, Sádi-Arabía, Síle og þjóðir númer tvö og þrjú í Afríku.

Í fjórða flokki eru Úrúgvæ, Íran, Suður-Kórea, Holland, Slóvenía, þjóðir fjögur og fimm í Afríku og fulltrúi Norður- og Mið-Ameríku.

Þá ákvað Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, að veita Hollandi og Slóveníu keppnisrétt á HM 2023 þó liðin hafi ekki unnið sér hann inn, en sambandið hefur tvö sæti sem það getur úthlutað sem svokölluðu „wildcard."

Valið á Hollandi og Slóveníu er rökstutt með því að annars vegar sé Holland afar vaxandi handboltaþjóð sem hafi gert mikið til að byggja upp íþróttina til framtíðar og hinsvegar hafi Slóvenía náð góðum árangri á undanförnum árum ásamt því að hafa lagt mikið í uppbyggingu handboltans í landinu.

mbl.is