Íslandsmeistararnir fá liðsauka

Arna Sif Pálsdóttir í landsleik.
Arna Sif Pálsdóttir í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna Sif Pálsdóttir, ein reyndasta handknattleikskona landsins og landsliðskona um árabil, er gengin til liðs við Íslandsmeistara Fram og hefur samið þar til tveggja ára.

Framarar skýrðu frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í dag. Arna er 34 ára gömul, leikur sem línumaður, en hún spilaði ekkert á síðasta tímabili vegna barneigna. Arna lék um árabil sem atvinnumaður í Danmörku, Frakklandi og Ungverjalandi, og er í hópi leikjahæstu landsliðskvenna Íslands. Hún lék með HK áður en hún fór í atvinnumennsku en síðan með ÍBV og Val eftir heimkomuna.

mbl.is