Hildur leggur skóna á hilluna

Hildur Þorgeirsdóttir í leik með Fram á nýliðinu tímabili.
Hildur Þorgeirsdóttir í leik með Fram á nýliðinu tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hildur Þorgeirsdóttir, fyrirliði Fram, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hún hefur verið ein fremsta handknattleikskona landsins frá því hún hóf ferilinn með FH.

Árið 2009 gekk hún til liðs við Fram og var þar í tvö ár. Hún lék svo næstu fjögur ár í þýsku A-deildinni. Fyrst í tvö ár með Blomberg-Lippe og svo með Koblenz. Árið 2015 kom Hildur heim og gekk til liðs við Fram. 

Hún varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Fram, síðast á nýliðnu tímabili, fjórum sinnum bikarmeistari og tvisvar deildarmeistari. 

Hildur hefur leikið 52 landsleiki með íslenska landsliðinu og tók þátt á EM 2012 í Serbíu. 

Á síðustu árum hefur Hildur einnig þjálfað yngri flokka hjá Fram og varð meðal annars Íslandsmeistari með fjórða flokki kvenna í vor. 

mbl.is