Ellefu marka sigur á Hollendingum

Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ísak Steinsson eftir leikinn í dag.
Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ísak Steinsson eftir leikinn í dag. Ljósmynd/HSÍ

Strákarnir í U18-ára landsliði Íslands í handknattleik mættu jafnöldrum sínum frá Hollandi á Nations Cup, sem fer fram í Lübeck í Þýskalandi um þessar mundir, í dag og höfðu öruggan 39:28-sigur.

Strákarnir hófu leikinn af miklum krafti og lokuðu vel á hratt spil Hollendinga. Mörg góð hraðaupphlaupsmörk komu í kjölfar öflugs varnarleiks. Forskot Íslendinga jókst eftir því sem leið á hálfleikinn og þegar hálfleiksflautan gall var staðan 21:11, Íslandi í vil eftir frábæran fyrri hálfleik.

Strákarnir hleyptu Hollendingum ekki inn í leikinn í síðari hálfleik. Spilamennska liðsins var í góðu jafnvægi allan tímann og þegar yfir lauk höfðu íslensku strákarnir unnið ellefu marka sigur.

Brunavarnakerfi keppnishallarinnar í Lübeck fór í gang þegar 18 mínútur voru eftir af leiknum og þurfti að gera 20 mínútna hlé á honum á meðan allir keppendur, starfsmenn leiks og þeir fjölmörgu áhorfendur sem fylgdust með leiknum þurftu að yfirgefa höllina á meðan fundið var úr málinu. Þetta hafði lítil áhrif á okkar stráka sem héldu síðan ótrauðir áfram eftir pásuna.

Markaskorarar Íslands: Atli Steinn Arnarson 6, Elmar Erlingsson 6, Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Andri Fannar Elísson 4, Kjartan Þór Júlíusson 4, Sæþór Atlason 4, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Birkir Snær Steinsson 2, Hans Jörgen Ólafsson 2, Hinrik Hugi Heiðarsson 1, Viðar Ernir Reimarsson 1, Össur Haraldsson 1.

Í markinu varði Ísak Steinsson tíu skot, sem er 45 prósent markvarsla og Breki Hrafn Árnason sjö skot, sem er 30 prósent markvarsla.

Á morgun leikur liðið lokaleik sinn í mótinu en þá mætir Ísland ógnarsterku liði Þýskalands klukkan 16.30 að íslenskum tíma.

mbl.is