Óheppilegt að hafa fengið langsterkasta lið þriðja styrkleikaflokks

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, kvaðst spenntur fyrir verkefninu sem liðið stendur frammi fyrir í D-riðli HM 2023 í janúar næstkomandi þar sem liðið dróst með Portúgal, Ungverjalandi og Suður-Kóreu.

Hann var þó nokkuð svekktur með að dragast gegn Ungverjalandi, langsamlega sterkasta liðinu úr þriðja styrkleikaflokki. Ísland var í efsta styrkleikaflokki, Portúgal í öðrum og Suður-Kórea í þeim fjórða.

„Það er náttúrlega alveg ljóst að við fengum langsterkasta liðið úr þriðja styrkleikaflokki í okkar riðil. Það er það sem maður getur sagt vera óheppilegt, vegna þess að það er frábært lið og það þekkjum við svo sem.

Ef maður ber það saman við hin liðin sem voru í þriðja styrkleikaflokki þá er þetta langbesta liðið,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is eftir að dregið var í átta riðla í Katowice í Póllandi í dag.

„Með Portúgal getur maður sagt að það eru eiginlega allt sterk lið í öðrum styrkleikaflokki en það er líka mjög gott lið. Þannig að riðillinn er bara snúinn og þetta er spennandi verkefni.

Svo með milliriðilinn þá lendum við með C-riðlinum og það er bara líka spennandi verkefni. Mér líst ágætlega en það sér það hvert mannsbarn að úr þriðja styrkleikaflokki lendir Ungverjaland hjá okkur og það er auðvitað engin óskastaða,“ bætti hann við.

Í C-riðlinum eru Svíþjóð, Brasilía, Afríkuþjóð sem á eftir að koma í ljós hver verður og Úrúgvæ.

Ansi margir leikir við Portúgal

Portúgal og Ungverjaland eru íslenska liðinu að góðu kunn enda voru þau bæði með því í riðli á EM 2022 í janúar síðastliðnum.

„Það er alveg furðulegt hvernig þetta raðast. Það má segja að það sé gott fyrir okkur að þekkja þau vel en að sama skapi þekkja þau okkur líka,“ sagði Guðmundur.

Hann vakti athygli á því að Ísland hafi mætt Portúgal óvenju oft á undanförnum árum.

„Við erum núna búnir að spila ansi marga leiki við Portúgal á nokkrum árum. Þetta hefur hist þannig á að við spiluðum líka við þá á EM 2020, spiluðum við þá á HM 2021, spiluðum við þá á EM 2022 og erum að lenda aftur á móti þeim núna.

Portúgal er auðvitað mjög sterkt lið, gott lið og við vitum það. Það mátti alltaf búast við því að það kæmi gott lið upp úr öðrum styrkleikaflokki, það var enginn vafi á því fyrir fram.

En kannski hefði verið betra að sleppa við Ungverja úr þriðja styrkleikaflokki inn í þennan riðil. Ef maður skoðar hin liðin sem voru í honum eru þau langt frá því að vera jafn sterk og Ungverjar eru.“

Hafa reynst okkur erfiður andstæðingur

Þá er ógetið Suður-Kóreu, sem var í fjórða styrkleikaflokki. Hvers má vænta af þeim?

„Það er erfiður andstæðingur og hefur líka alltaf reynst okkur það í gegnum tíðina. Það er eitthvað sem verður gaman að glíma við.

Þeir eru með gott lið og hafa verið árum saman. Það er ekkert gefins í þessu. Þessi riðill er bara krefjandi,“ sagði Guðmundur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert