Guðmundur á reynslu í Þýskalandi

Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik með Haukum á síðasta tímabili.
Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik með Haukum á síðasta tímabili. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðmundur Bragi Ástþórsson, leikmaður karlaliðs Hauka í handknattleiks, er til reynslu hjá þýska 1. deildarliðinu Hamm-Westfalen um þessar mundir.

Handbolti.is vekur athygli á þessu og greinir frá að Guðmundur Bragi hafi leikið með liðinu gegn Wetzlar á Linden Cup-æfingamótinu í gær og að líkast til muni hann leika tvo æfingaleiki með Hamm-Westfalen til viðbótar.

Standi Guðmundur Bragi sig vel á reynslu eru allar líkur taldar á að Hamm-Westfalen freisti þess að kaupa hann frá Haukum.

Liðið er nýliði í þýsku 1. deildinni eftir að hafa hafnað í öðru sæti á eftir Íslendingaliði Gummersbach í þýsku B-deildinni á síðasta tímabili.

Síðast þegar Hamm-Westfalen lék í efstu deild, fyrir áratug síðan, var stórskyttan Einar Hólmgeirsson á mála hjá liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert