Guðjón og Gummersbach á sigurbrautinni

Guðjón Valur Sigurðsson fer vel af stað sem þjálfari liðs …
Guðjón Valur Sigurðsson fer vel af stað sem þjálfari liðs í efstu deild. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari nýliðanna í Gummersbach fagnaði í dag þriðja sigri liðsins í fyrstu fjórum umferðum þýsku 1. deildarinnar í handknattleik þegar það lagði Wetzlar í spennuleik á útivelli, 30:29.

Gamla stórveldið hefur því farið vel af stað í bestu deild heims þar sem það leikur nú á ný eftir tveggja ára fjarveru. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach í dag og Hákon Daði Styrmisson var í leikmannahópnum í annað sinn en hann er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum sem urðu til þess að hann lék ekkert  seinni hluta síðasta tímabils.

Viggó Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Leipzig sem tapaði á heimavelli fyrir Hamburg, 22:23. Leipzig hefur tapað fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu en það sama er reyndar að segja um Hamm, Wetzlar, Stuttgart og Minden.

Hannover-Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, vann Melsungen á útivelli, 31:28. Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen en Elvar Örn Jónsson er ekki byrjaður að spila á þessu tímabili vegna meiðsla. Hannover-Burgdorf hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjunum en Melsungen er með þrjú stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert