Tvöfaldur sigur hjá Íslendingafélaginu

Sunna Guðrún Pétursdóttir ver mark Amicitia Zürich í Sviss.
Sunna Guðrún Pétursdóttir ver mark Amicitia Zürich í Sviss. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslenskt handknattleiksfólk leikur með bæði kvenna- og karlaliði Amicitia Zürich í Sviss og í gær unnu bæði lið félagsins þar sem Íslendingarnir komu nokkuð við sögu.

Kvennalið Amicitia Zürich vann góðan útisigur á Winterthur, 33:27. Harpa Rut Jónsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Amicitia og Sunna Guðrún Pétursdóttir varði átta skot í marki liðsins sem hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum.

Ólafur Andrés Guðmundsson leikur með karlaliði Amicitia sem vann heimasigur á St. Gallen, 29:27. Ólafur skoraði tvö mörk í leiknum. Karlalið Amicitia hefur líka unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu.

Kadetten, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, vann Kreuzlingen 30:22 í karladeildinni og er þar efst með 10 stig eftir sex leiki. Óðinn Þór Ríkharðsson gekk til liðs við Kadetten í sumar en er úr leik sem stendur vegna meiðsla.

mbl.is
Loka