Óheppnin eltir Gísla Þorgeir

Gísli Þorgeir Kristjánsson er enn á ný að glíma við …
Gísli Þorgeir Kristjánsson er enn á ný að glíma við meiðsli. Ljósmynd/Magdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi Magdeburg og íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, meiddist á hné í leik Göppingen og Magdeburgar í þýsku 1. deildinni á sunnudaginn var.

Á heimasíðu félagsins kemur fram að Gísli hafi meiðst á hægra hné og að hann hafi gengist undir rannsóknir vegna meiðslanna á háskólasjúkrahúsinu í Magdeburg í gær.

Hann þurfi hins vegar á frekari rannsóknum að halda til þess að skera úr um það hvers eðlis meiðslin eru.

Gísli Þorgeir, sem er 23 ára gamall, hefur verið afar óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina og þurft að ganga nokkrum sinnum undir aðgerð vegna meiðsla á öxl.

Hann varð Þýskalandsmeistari með Magdeburg á síðustu leiktíð og hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu í ár en hann skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur fimm gegn Göppingen áður en hann meiddist. Leiknum lauk með 31:26-sigri Magdeburgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert