Gekk af göflunum í Þýskalandi

Elliði Snær Viðarsson fór á kostum í dag.
Elliði Snær Viðarsson fór á kostum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson fór bókstaflega á kostum fyrir Gummersbach þegar liðið vann 29:24-heimasigur gegn Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.

Elliði Snær gerði sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk úr 14 skotum og þá skoraði Hákon Daði Styrmison eitt mark fyrir Gummersbach.

Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins sem er með 8 stig í sjötta sæti deildarinnar en þetta var fjórði sigurleikur liðsins á tímabilinu.

Viggó Sigurðsson átti stórleik fyrir Leipzig þegar liðið vann 32:29-sigur gegn Erlangen á heimavelli en Viggó skoraði sjö mörk og var markahæstur ásamt þeim Patrick Larsen og Simon Ernst.

Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen sem er með 8 stig í fimmta sætinu en Leipzig er með 2 stig í þrettánda sætinu.

Þá skoraði Arnór Þór Gunnarsson eitt mark fyrir Bergischer þegar liðið tapaði 23:33 á útivelli fyrir Hamburg en Bergischer er með 4 stig í tíunda sætinu.

mbl.is