Þórsarar fá liðsauka frá Króatíu

Stevce Alusovski er þjálfari Þórsara.
Stevce Alusovski er þjálfari Þórsara. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þórsarar á Akureyri hafa fengið liðsauka fyrir baráttuna í 1. deild karla í handknattleik í vetur en króatíska skyttan Josip Vekic hefur fengið leikheimild með þeim.

Handbolti.is skýrir frá þessu og segir að Vekic sé hávaxinn leikmaður, 2,09 m á hæð, og leiki sem örvhent skytta. Hann lék með Emsdetten í þýsku B-deildinni á síðasta tímabili og lék áður í Sviss. Hann var í leikmannahópi króatíska stórliðsins PPD Zagreb tímabilið 2019-20 og síðan hjá makedónska stórliðinu Vardar Skopje veturinn á eftir og spilaði þá undir stjórn Stevce Alusovski, núverandi þjálfara Þórs.

Keppni í 1. deild karla, Grill 66-deildinni, hefst í kvöld og Þórsarar leika upphafsleik deildarinnar gegn Fjölni í Íþróttahöllinni á Akureyri klukkan 17.30.

mbl.is