Skoraði 14 mörk en var í tapliði og HK vann stórsigur

Goði Ingvar Sveinsson skoraði sex mörk fyrir Fjölni gegn Þór …
Goði Ingvar Sveinsson skoraði sex mörk fyrir Fjölni gegn Þór á Akureyri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölnismenn gerðu góða ferð til Akureyrar í gær þegar þeir lögðu Þórsara að velli, 29:27, í fyrsta leiknum í 1. deild karla, Grill 66-deildinni, á nýju keppnistímabili.

Fjölnir var yfir í hálfleik, 16:12, og sannkallaður stórleikur hjá Þórsaranum Arnóri Þorra Þorsteinssyni dugði ekki Akureyrarliðinu. Hann skoraði rúmlega helming marka Þórs eða 14 talsins. Króatíska skyttan Josip Vekic, sem hefur leikið með stórliðunum Vardar Skopje og PPD Zagreb skoraði fimm mörk í sínum fyrsta leik með Þór.

Benedikt Marinó Herdísarson skoraði sjö mörk fyrir Fjölni og þeir Goði Ingvar Sveinsson og Óðinn Freyr Heiðmarsson sex mörk hvor.

Kórdrengir gerðu ekki góða ferð í Kórinn í Kópavogi því þar steinlágu þeir fyrir HK, 41:26. Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha skoraði 10 mörk fyrir HK og Hjörtur Ingi Halldórsson átta en Tómas Helgi Wehmeier skoraði 11 mörk fyrir Kórdrengi.

Þá vann ungmennalið KA sigur á ungmennaliði Fram í Úlfarsárdal, 30:27, og Víkingur vann ungmennalið Selfoss, 37:32, í Víkinni.

mbl.is