Sterkur sigur Kielce í Danmörku – Magdeburg tapaði

Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk í kvöld.
Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk í kvöld. Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Kielce þegar liðið heimsótti Aalborg í Íslendingaslag í B-riðli Meistaradeildarinnar í handknattleik í Danmörku í kvöld.

Leiknum lauk með tveggja marka sigri Kielce, 30:28, en Aron Pálmarsson skoraði 3 mörk fyrir Aalborg. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari danska liðsins.

Kielce er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins en Aalborg er í öðru sætinu, einnig með 4 stig en bæði lið hafa leikið þrjá leiki í keppninni á tímabilinu.

Þá tapaði Magdeburg með sjö marka mun þegar liðið fékk París SG í heimsókn í A-riðli keppninnar í Þýskalandi.

Ómar Ingi Magnússon  var næstmarkahæstur í liði Magdeburgar með 5 mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt en leiknum lauk með 29:22-sigri París SG.

Magdeburg er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins, tveimur stigum minna en topplið Veszprém.

Ómar Ingi Magnússon var drjúgur fyrir Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon var drjúgur fyrir Magdeburg. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is