Framarar taplausir og FH án sigurs

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson kom mikið við sögu undir lokin í …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson kom mikið við sögu undir lokin í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framarar eru áfram taplausir í úrvalsdeild karla í handknattleik og FH-ingar eru áfram án sigurs eftir að liðin skildu jöfn, 25:25, í Kaplakrika í kvöld.

Framarar eru með sex stig í öðru sæti deildarinnar en FH-ingar gerðu sitt annað jafntefli og eru næstneðstir í deildinni með tvö stig.

Framarar byrjuðu betur og komust í 4:1 og síðan 8:4. FH-ingum tókst að jafna í 10:10 en Fram svaraði um hæl og var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11.

Framarar voru áfram með forystuna fram í miðjan síðari hálfleik þegar FH náði að jafna, 19:19, og síðan aftur í 23:23. Undirtökin voru samt áfram Framara en FH-ingar gáfust ekki upp og Leonharð Þorgeir Harðarson jafnaði fyrir FH, 25:25, þegar rúm mínúta var eftir. 

Mikið gekk á í lokin og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson úr Fram fékk rauða spjaldið fyrir að skjóta í andlit mótherja úr aukakasti á síðustu sekúndu.

Mörk FH: Leonharð Þorgeir Harðarson 6, Ásbjörn Friðriksson 5, Jakob Martin Ásgeirsson 4, Einar Örn Sindrason 4, Jón Bjarni Ólafsson 2, Birgir Már Birgisson 2, Einar Bragi Aðalsteinsson 1, Jóhannes Berg Andrason 1.

Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 6, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Marko Coric 3, Ólafur Brim Stefánsson 3, Stefán Darri Þórsson 2, Ívar Logi Styrmisson 2, Luka Vukicevic 2, Alexander Már Egan 1, Þorvaldur Tryggvason 1, Stefán Orri Arnalds 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert